Síldarvinnslan hefur um árabil lagt mikla áherslu á öryggismál starfsfólks og þá ekki síst öryggismál sjómanna. Sérhver starfseining fyrirtækisins sem hefur státað af slysalausu ári hefur síðan fengið ákveðna peningaupphæð afhenta sem viðurkenningu fyrir árangursríkt starf á sviði öryggismála. Árið 2014 var slysalaust ár hjá áhöfninni á Beiti NK og fékk hún 600 þúsund krónur frá fyrirtækinu í viðurkenningarskyni. Áhöfnin tók ákvörðun um að láta Björgunarsveitina Gerpi í Neskaupstað njóta þessarar peningaupphæðar og skyldi sjóbjörgunardeild sveitarinnar fá hana til ráðstöfunar. Áhöfnin á Beiti afhenti fulltrúa Björgunarsveitarinnar peningaupphæðina um borð í skipinu á sjómannadaginn.