Polar Amaroq á loðnuveiðum. Ljósm: Ísak Fannar Sigurðsson

Polar Amaroq á loðnuveiðum. Ljósm: Ísak Fannar Sigurðsson

Í dag mun áhöfnin á grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq afhenda systrunum Áslaugu Ýri og Snædísi Rán Hjartardætrum styrk að upphæð eina milljón króna. Styrkurinn er ætlaður til að kosta þjónustu túlka í fyrirhugaðri sumarbúðaferð þeirra systra til Danmerkur á komandi sumri. Vegna fötlunar eru systurnar algjörlega háðar túlkaþjónustu en fyrir lá að þær þyrftu að kosta slíka þjónustu sjálfar í ferðinni og það var þeim um megn án utanaðkomandi aðstoðar.

                Heimasíðan ræddi við Geir Zoega skipstjóra á Polar Amaroq og segir hann að áhöfnin muni afhendi styrkinn með með mikilli ánægju. „Við vorum að ljúka við að þrífa skipið að aflokinni loðnuvertíð þegar við sáum viðtal við systurnar í sjónvarpsfréttum,“ sagði Geir. „ Þar kom fram að þær myndu ekki geta farið í langþráða sumarbúðaferð án túlkaþjónustu og þær gætu engan veginn ráðið við að greiða kostnað vegna túlkanna úr eigin vasa. Við í áhöfninni eigum starfsmannasjóð og í honum var ein milljón króna. Það kom strax fram sú hugmynd að afhenda systrunum sjóðinn sem styrk til að standa straum af kostnaði vegna túlkanna. Það þurfti ekki að ræða þetta lengi, það voru allir sammála um að afhenda systrunum sjóðinn, jafn Grænlendingar sem Íslendingar í áhöfninni. Fulltrúar áhafnarinnar munu síðan hitta systurnar í dag, skírdag, og afhenda þeim styrkinn með stolti. Það verður gaman að hitta þær og óska þeim góðrar ferðar til Danmerkur“, sagði Geir að lokum.