Polar Ammassak var 7-8 mílur frá landi þegar gosið hófst.

Þegar eldgosið hófst á Reykanesi upp úr klukkan tíu í gærkvöldi var grænlenska skipið Polar Ammassak statt um sjö til átta mílur út af Krísuvíkurbjargi. Í brúnni var Geir Zoёga skipstjóri og segir hann svo frá: „Við vorum á leið til Hafnarfjarðar frá Danmörku þar sem við lönduðum síld. Ég var alltaf annað slagið að líta eftir ljósum í landi. Þar sem ég stend þarna og skima til lands sé ég allt í einu eld birtast sem stækkaði fljótt. Mér datt strax í hug eldgos og fór og kannaði á netinu hvað fjölmiðlar segðu en þá voru engar fréttir af eldgosi. Ég kallaði strax á strákana og við fylgdumst agndofa með því sem var að gerast. Það var mikill bjarmi frá eldinum og þetta var heljarinnar sjónasrspil. Hér var um að ræða einstaka upplifun og líklega fær maður ekki að upplifa neitt þessu líkt aftur í lífinu. Þessu mun maður aldrei gleyma,“ segir Geir Zoёga.

Það var mikilfenglegt að fylgjast með gosinu og gosbjarmanum frá sjó.
Guðbjartur Gunnþórsson stýrimaður og Geir Zoëga skipstjóri í brúnni á Polar Ammassak við upphaf gossins. Myndir fengnar hjá Geir Zoëga.