Starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði sem sótt hafa íslenskunám hjá Austurbrú í vetur. Talið frá vinstri: Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Sokolov frá Serbíu. Ljósm. Ómar Bogason

Austurbrú hefur í vetur boðið upp á íslenskunám fyrir útlendinga á Seyðisfirði. Kennari hefur verið Ólafía Stefánsdóttir. Þrír starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafa sótt námskeiðið og hafa sýnt náminu einstakan áhuga. Heimasíðan spjallaði við Ólafíu og spurði hana nánar út í námið. „Það er Austurbrú sem stendur fyrir náminu og það hefur gengið vel. Í haust var byrjað á námskeiði fyrir byrjendur og sóttu það átján nemendur þegar mest var, þar af þrjár konur frá frystihúsi Síldarvinnslunnar. Þær eru frá Lettlandi, Ungverjalandi og Serbíu og sýndu náminu einstakan áhuga. Þegar ég ætlaði að hlífa nemendum og sleppa þeim við heimavinnu komu þær og báðu um heimaverkefni. Mikið væri gott ef allir nemendur væru svona. Fyrir utan námskeiðið notuðu þær netið óspart en þar er unnt að finna gott námsefni eins og Icelandic Online frá Háskóla Íslands. Þetta var námskeið fyrir byrjendur en síðan verður boðið upp á áframhaldandi nám eftir áramót. Ég vona að þá komi fleiri starfsmenn frystihússins. Fyrirtækin greiða námskeiðskostnaðinn fyrir starfsmenn sína og það gerir Síldarvinnslan. Sum fyrirtæki hvetja starfsfólk sitt sérstaklega til að sækja námskeiðin og það er einmitt það sem Síldarvinnslan gerir,“ segir Ólafía. 

Ómar Bogason hjá frystihúsinu á Seyðisfirði segir að mikil ánægja sé með íslenskunámskeið Austurbrúar. Hann segir jafnframt að í frystihúsinu sé mikil áhersla lögð á að tala íslensku við erlenda starfsmenn og eigi það örugglega þátt í því að margir þeirra ná tökum á málinu á undraskömmum tíma.