Tryggvi Vilmundarson var á Berki NK þegar hann orti um loðnuleysið. Ljósm. Jóhann Gunnar KristinssonTryggvi Vilmundarson var á Berki NK þegar hann orti
um loðnuleysið. Ljósm. Jóhann Gunnar Kristinsson
Nú er loðnunnar leitað og menn bíða spenntir og áhyggjufullir eftir fréttum frá leitarskipum. Þetta er ekkert nýtt. Oft áður hefur loðnan látið bíða eftir sér og tekið upp á ýmsu óvæntu. Loðnan er duttlungafull og aðstæður í hafinu breytilegar þannig að óvissan tilheyrir gjarnan þessum árstíma hjá loðnusjómönnum og fyrirtækjum og bæjarfélögum sem treysta á loðnuna.
 
Á árunum fyrir 1980 var hagyrðingurinn og netagerðarmeistarinn Tryggvi Vilmundarson háseti á Berki NK og þá lét loðnan bíða eftir sér eitt árið rétt eins og nú. Á þeim tíma var Hjálmar Vilhjálmsson helsti loðnusérfræðingur Hafrannsóknastofnunar og sífellt var leitað álits hjá honum og spurt frétta. Hvað er að gerast? Hvar heldur loðnan sig? Tryggvi Vilmundarson orti um loðnuvandræðin og afleiðingar þeirra með eftirfarandi hætti, en Norðfirðingar rifja gjarnan upp kveðskapinn þegar loðnuáhyggjurnar  heltaka hugann.
 
        Líklega er búið loðnu æðið
        lagstur er hafís yfir svæðið.
        Hjálmar leitar um höfin víða     
        með hugann fullan af efa og kvíða.
 
        Hann finnur ei neitt og fær ekki skilið
        hver fjandinn hafi nú hlaupið í spilið.
        Því enga loðnu er um að tala
        austan af fjörðum og vestur á Hala.
 
        Við bítum á jaxlinn og bölvum í hljóði
        því brátt fer hjá mörgum að rýrna í sjóði.
        Fógetinn kemur með kröfur og skatta
        og konurnar þurfa líka slatta.
 
        Bræðslukarlarnir berja lóminn
        og bankastjórarnir skella í góminn,
        því efnahagslífið fer allt úr skorðum
        ef loðnan bregst eins og síldin forðum.
 
Loksins kom að því að loðnan fannst og þá var öllum létt. Í tilefni af því að loðnuveiðarnar gátu hafist orti Tryggvi:
             Loðnan er fundin, það er lán fyrir alla
             látum nú helvítis gengið falla.
             Hjálmar er laus við hræðsluna og kvíðann,
             enda hefur hann ekki þagnað síðan.