Hinn 6. mars sl. fann grænlenska skipið Polar Amaroq stóra loðnutorfu undir Látrabjargi. Þarna óð loðnan og segir Geir Zoëga skipstjóri að hann hafi aldrei áður séð vaðandi loðnu á vetrarvertíð. „Þetta var vaðandi hrygningarloðna og torfan var býsna stór. Líklega var hún 1 km á kant eða svo, eða um 1.000.000 fermetrar. Það var gríðarlegt líf þarna og það var svo mikið af fugli að fuglagerið sást greinilega á radar. Ljóst var að þarna var loðnan að gera sig klára til hrygningar og þarna um kvöldið lagðist hún og hrygndi. Við köstuðum með litlu loðnunótinni og fengum svo mikið að við sprengdum, nótin rifnaði öll. Sem betur fer erum við með tvær nætur um borð og kláruðum vertíðina vestur af Öndverðarnesi með stóru nótinni. Þetta er búin að vera flott loðnuvertíð þrátt fyrir lítinn kvóta því verð eru mjög há. Það hefur verið hagstætt tíðarfar og svo hefur líka víða verið loðna þannig að það hafa aldrei verið vandræði að fiska. Við á Polar Amaroq erum búnir að veiða 6.747 tonn á vertíðinni og nú fara menn að undirbúa skipið fyrir kolmunnann,“ segir Geir.