Síldarvinnslan hefur lengi stutt starfsemi SÁÁ

Síldarvinnslan hefur stutt SÁÁ dyggilega á undanförnum árum og það er ekkert lát á þeim stuðningi. Nú fyrir jólin fer fram sala á jólaálfinum og er það ein af mikilvægum fjáröflunarleiðum samtakanna. Síldarvinnslan tók þá ákvörðun að festa kaup á 360 álfum þannig að hver einasti starfsmaður fyrirtækisins fær álf í hendur. Guðný Pálsdóttir hjá SÁÁ hafði samband við heimasíðuna og sagði fulla ástæðu til að vekja athygli á þessum myndarlega stuðningi. „Það hefur gengið vel að selja jólaálfinn og allt sem safnast við söluna fer í að halda opnum göngudeildum SÁÁ allan ársins hring. Við viljum þakka Síldarvinnslunni frábæran stuðning og ég vil nota tækifærið og skora á önnur sjávarútvegsfyrirtæki að gera slíkt hið sama. Hér má líka koma fram að nú er unnt að kaupa jólaálfinn á netinu (jólaálfur.is) og fá hann heim að dyrum,“ segir Guðný.

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að fyrirtækið sé stolt af því að styðja hið mikilvæga starf sem SÁÁ heldur úti og það sé meðal annars gert með kaupum á jólaálfinum nú fyrir jólin.