Makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.Í morgun kom sumarstarfsfólk til starfa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í þeim hópi eru um 20 starfsmenn sem ekki hafa áður gegnt störfum við síldar- og makrílvinnslu og munu þeir njóta nýliðafræðslu á næstu dögum. Að þeirri fræðslu lokinni munu nýliðarnir bætast í hóp þeirra sem unnið hafa að undirbúningi vertíðar. Í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hefur einnig verið unnið að undirbúningi vertíðarinnar og má segja að þar sé allt orðið klárt fyrir móttöku hráefnis.

Tvö skipa Síldarvinnslunnar munu leggja stund á síld- og makrílveiðar, Börkur NK og Beitir NK. Börkur kom til Neskaupstaðar fyrir helgina en hann hefur að undanförnu verið á Akureyri þar sem unnið var að viðhaldi skipsins. Beitir er enn á Akureyri en þar hefur hann verið í slipp og verður ekki tilbúinn til veiða fyrr en undir lok mánaðarins. Gera má ráð fyrir að Börkur haldi til veiða í næstu viku og vertíðin hefjist af fullum krafti upp úr því.