Beitir NK kom til löndunar í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að lokinni stuttri veiðiferð. Aflinn var 1.580 tonn af síld og hófst vinnsla úr skipinu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar síðdegis. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra og spurði fyrst í hve mörgum holum aflinn hefði fengist. „Aflinn fékkst í fjórum holum sunnarlega á Héraðsflóanum. Þegar við komum út var ekki sérstaklega mikið að sjá en síðan birtist allt í einu fullt af síld. Í síðasta holinu fengust tæp 800 tonn og það var einungis dregið í 50 mínútur. Þegar síldin birtist var hörkuveiði hjá öllum bátunum sem þarna voru. Síldin er stundum svona; það er lítið að sjá eina stundina en augnabliki síðar er allt gjörbreytt. Veiðarnar hafa gengið vel að undanförnu og allt útlit fyrir að svo verði áfram,“ segir Sturla.

Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að síldin úr Beiti sé í hæsta gæðaflokki. „Síldin er eins fersk og hún getur verið og hentar í alla staði vel til vinnslu. Við erum að framleiða samflök og síðan er stærsta síldin heilfryst. Þetta er úrvalsvara,“ segir Oddur.