Trollið tekið á Bjarti NK fyrr í þessum mánuði.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær. Veiðiferðin gekk afar vel og var aflinn rúmlega 362 tonn upp úr sjó, stærsti hlutinn ufsi. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri var býsna ánægður þegar í land var komið: „Þetta var lúxustúr og mokfiskirí. Við vorum yfirleitt hálfan sólarhring á veiðum og létum síðan reka hinn helminginn á meðan aflinn var unninn. Veitt var á Halanum og tók túrinn einungis 13 daga höfn í höfn. Þetta getur vart verið betra“.

Sömu sögu er að segja af ísfisktogaranum Bjarti NK. Hann kom til hafnar í gær og mun landa í dag. Afli hans er tæp 90 tonn, þar af 56 tonn þorskur og 22 tonn ufsi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var kátur þegar haft var samband við hann:“Það fiskaðist í reynd vel allan túrinn. Við byrjuðum suður í Berufjarðarál, tókum síðan eitt hol á Fætinum og ein þrjú á Herðablaðinu. Þá voru tekin þrjú-fjögur hol á Gerpistotunni og sömuleiðis þrjú-fjögur á Hryggnum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var einmuna blíðuveður allan túrinn og segja má að allt hafi verið í lukkunnar velstandi“.