Troll Gullvers, gamalt troll og ýmislegt fleira komið inn á dekk. Ljósm. Hjálmar Ólafur Bjarnason

Rétt eftir miðnætti aðfaranótt sl. fimmtudags festi togarinn Gullver NS veiðarfærin kyrfilega í botni þar sem skipið var að veiðum á Glettinganesgrunni. Trollið var fast á 110 faðma dýpi. Strax var byrjað að reyna að losa veiðarfærið; reynt var að hífa og toga í allar áttir en ávallt var allt pikkfast. Að því kom að grandarinn bakborðsmeginn slitnaði og yfirleitt er unnt að losa þegar það gerist en því fór fjarri í þessu tilviki. Skipverjar settu út slæðu til að festa í trollinu en það breytti engu. Að því kom að trollið, slæðan og annar hlerinn slitnuðu frá skipinu og þá var ekkert annað að gera en að sigla inn til Seyðisfjarðar þar sem náð var í nýja slæðu og hlera. Áhöfninni á Gullver er meinilla við að skilja eftir drauganet í sjó og því skyldi allt reynt til að ná trollinu upp. Drauganet geta verið mikill skaðvaldur og bæði fiskur og fuglar setið föst í þeim.

Strax var haldið á ný á staðinn þar sem trollið var fast en nemar á veiðarfærinu gefa til kynna hvar það er niður komið. Og nú gekk allt vel því að í annarri tilraun tókst að festa slæðuna í trollinu. Síðan var híft og þá kom ýmislegt í ljós. Auk veiðarfærisins sem Gullver hafði tapað fylgdi með poki og höfuðlína úr gömlu trolli. Þá fylgdi einnig ýmislegt járndót eins og bóma, rótor og fleira og gúmmíbjörgunarbátur að auki. Þegar þetta allt var komið inn á dekkið á Gullver var það sneisafullt og ekki nokkur leið að greiða úr allri flækjunni um borð. Því var siglt inn til Seyðisfjarðar á ný og allt sem á dekkinu var híft í land. Að sögn Hjálmars Ólafs Bjarnasonar, stýrimanns á Gullver, sýndi Landhelgisgæslan öllu því, sem upp úr sjónum kom, mikinn áhuga og þegar í land var komið mættu lögreglumenn til að skoða það. Þá bað gæslan einnig um myndir af öllu því sem Gullver færði að landi.

Á framansögðu sést að Gullver hafði fest trollið í skipsflaki og ljóst var vegna gamla trollsins sem upp kom að Gullversmenn voru ekki þeir fyrstu til að flækja veiðarfæri í flakinu.

Hjálmar Ólafur segir að eitt hafi vakið athygli Gullversmanna þegar glímt var við að ná veiðarfærinu lausu; erlent stórt herskip var á sveimi í kringum togarann og virtist sýna honum mikinn áhuga. „Það dólaði í kringum okkur um tíma en hvarf síðan á braut. Við sáum engar merkingar á skipinu og ekki heldur fána þannig að við vitum ekki hverrar þjóðar það var, en líklega getur Landhelgisgæslan svarað því,“ segir Hjálmar Ólafur.

Erlent herskip virtist fylgjast með þegar Gullver var að reyna að losa trollið. Ljósm. Hjálmar Ólafur Bjarnason

Heimasíðan ræddi við Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, og spurði hann hvers vegna lögregla hefði kannað það sem Gullver kom með að landi og eins var spurt um herskipið sem um ræðir. Ásgeir sagði að þegar ljóst var að Gullver hefði híft um borð hluti úr skipsflaki þá væri það föst regla að lögregla aflaði upplýsinga um slíka hluti. Landhelgisgæslan sendi síðan upplýsingar um málið til Rannsóknanefndar samgönguslysa. Ásgeir sagði að þarna væri líklega um að ræða hluti úr skipi sem sokkið hefði eftir 1960. Hvað herskipið varðar upplýsti Ásgeir að þarna hefði breskt herskip verið á ferðinni á alþjóðlegu hafsvæði og hefði það komið til hafnar í Reykjavík um helgina.

Þegar kannað var hvaða skip hafa farist á umræddum slóðum eftir 1960 kom fljótt upp nafnið Sæúlfur frá Tálknafirði. Sæúlfur var á landleið með síldarfarm 25. nóvember 1966 þegar hann sökk um 23 sjómílur austur af Dalatanga. Áhöfninni var bjargað um borð í síldarskipið Vonina. Sæúlfur var smíðaður í Austur-Þýskalandi árið 1962, en lengdur árið 1965 og eftir lenginguna var hann 240 lestir að stærð.