Nú eru skipin, sem landað hafa makríl hjá Síldarvinnslunni, hætt að eltast við hann að sinni enda hefur mjög dregið úr veiðinni að undanförnu. Það er síldin sem er næst á dagskrá. Börkur NK landaði 400 tonnum af síld í Neskaupstað í byrjun vikunnar og í morgun kom Vilhelm Þorsteinsson EA þangað með 1.120 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birki Hreinsson, skipstjóra á Vilhelm, og spurði fyrst hvar síldin hefði veiðst. „Við fengum þessa síld á Héraðsflóanum í þremur fjögurra og hálfs tíma holum. Þetta er eðalsíld, langmest norsk-íslensk en eitthvað svolítið af íslenskri sumargotssíld í bland. Það er alltaf gaman að veiða síld þegar nóg er af henni. Það er þægilegt að þurfa ekki að sækja hana langt eins og makrílinn. Annars rættist vel úr makrílvertíðinni miðað við hvernig hún leit út í upphafi,“ segir Birkir.