Hollendingurinn Ben Scholten er 18 ára og leggur stund á nám í flutningum ferskra matvæla með sérstakri áherslu á sjávarafurðir. Hann býr í litlu fiskiþorpi í norðvestur Hollandi og að undanförnu þegar hann hefur ekki sótt skólann hefur hann ráðið sig til starfa á litlum togveiðibáti eða á fiskmarkaðnum í heimaþorpinu. Eins hefur hann að undanförnu starfað á fiskmarkaðnum á laugardögum en þá fjölmenna íbúar Amsterdam á markaðinn til að kaupa fisk í soðið.
Í ágústmánuði síðastliðnum kom Ben til Neskaupstaðar og starfaði í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar út september. Hluti af námi hans felst í að afla sér reynslu og þekkingar utan Hollands og þar sem Ben leggur áherslu á að mennta sig á sviði flutninga á sjávarafurðum beindist áhugi hans að Íslandi. Hann aflaði sér upplýsinga og komst að raun um að Neskaupstaður væri helsti síldarbærinn á Íslandi en síldin, sem Hollendingar nefna maatjes, þykir afar áhugaverður fiskur í Hollandi og hefur reyndar haft mikil áhrif á sögu hollensku þjóðarinnar. Ben hafði samband við Síldarvinnsluna og fékk góðar viðtökur. Hann var ráðinn til starfa og aflaði sér þannig reynslu og þekkingar á íslenskum sjávarútvegi auk þess sem hann kynntist ágætlega íslensku samfélagi.
Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Ben og spurðist fyrir um hvernig honum hefði líkað Íslandsdvölin. Svar hans fer í megindráttum hér á eftir:
„Það var afar jákvæð reynsla fyrir mig að starfa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þarna kynntist ég tæknivæddri og nútímalegri framleiðslu og ég var sannast sagna undrandi á því hve afköstin voru mikil og hve mikil áhersla var lögð á gæði framleiðslunnar og fullkomna nýtingu hráefnisins. Sá sjávarútvegur sem ég þekki í Hollandi er allur smærri í sniðum og á það bæði við um veiðar og vinnslu. Hollendingar geta svo sannarlega lært margt af Íslendingum í þessum efnum þó svo að áhersla á gæði séu mikil í báðum löndunum.
Þó svo að ég hafi upplifað Neskaupstað sem einangraðan bæ leið mér afar vel þar. Ég eignaðist frábæra vini, íslenski maturinn var einstakur, það var ljúft að slappa af í sundlauginni og allt umhverfið var framandi fyrir mig. Þarna upplifði ég stórbrotna náttúru, norðurljós og opið og heiðarlegt fólk. Ég var alsæll á meðan ég dvaldi og starfaði í Neskaupstað og á þaðan ljúfar og góðar minningar. Ég mun örugglega koma þangað aftur.
Eftir að ég sneri heim á ný hef ég verið mikið spurður um ýmislegt sem tengist Íslandi. Eldgos eru þá vinsælt umræðuefni og yfirstandandi eldgos hefur ekki dregið úr forvitni Hollendinga hvað þau varða. Þá rigndi yfir mig spurningum um land og þjóð eftir að Ísland vann Holland í landsleik í knattspyrnu á dögunum. Þá var ég glaður að geta haldið með Íslandi.
Ég vil þakka Síldarvinnslunni fyrir að veita mér tækifæri til að kynnast íslenskum sjávarútvegi en þekkingin sem ég aflaði mér hjá fyrirtækinu er ómetanleg. Þá vil ég þakka samstarfsfólki mínu í fiskiðjuverinu fyrir afar góð kynni og vináttu. Ég vonast til að hitta alla vini mína á Íslandi sem fyrst á ný.“