Loðnulöndun úr Birtingi NK. Ljósm: Hákon Ernuson
Í gær var ágæt loðnuveiði hjá nótabátunum fyrir norðan land. Flestir bátarnir sem voru á miðunum fylltu eða fóru langt með það. Úti fyrir Austfjörðum hafa trollbátarnir verið að veiðum og hefur gengi þeirra verið nokkuð misjafnt. Spáð er suðvestan átt næstu daga og það er óhagstæð átt fyrir miðin úti fyrir Norðurlandi. Gera má því ráð fyrir að loðnuflotinn haldi sig fyrir austan á meðan áttin breytist ekki.
 
Hákon EA landaði í Neskaupstað í gær og hefur hafið veiðar á ný fyrir austan land. Birtingur NK landaði einnig í Neskaupstað og er kominn á miðin á ný. Börkur NK er að landa fullfermi á Seyðisfirði. Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi, 1150 tonn, til Neskaupstaðar og er ráðgert að um 500 tonn af afla hans verði landað í fiskiðjuverið. Beitir NK fyllti um miðnætti og verður í Neskaupstað með 2150 tonn í nótt. Polar Amaroq er síðan á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi eða 1950 tonn.
 
Nótabátarnir hafa verið að fá góð köst fyrir norðan og í gærdag gaf Bjarni Ólafsson til dæmis Polar Amaroq yfir 400 tonn úr síðasta kasti veiðiferðarinnar.