Sjónvarpsstjarna úr amerísku þáttaröðinni „Deadliest Catch“ kynnti sér starfsemi Síldarvinnslunnar í dag. Rick Fehst var skipstjóri á bátnum Early Dawn en fyrir þá sem ekki vita snýst þáttaröðin um dramatískar veiðar á krabba í erfiðum veðurskilyrðum fyrir utan strendur Alaska. Hann er hér á landi til að undirbúa samstarf Háskólans í West-Kentucky og Háskólans á Akureyri á sviði hnattrænna hlýnunar.  

Rick vinnur hjá „Semester at Sea“ sem er námslota fyrir háskólanema þar sem kennt er um borð í skipi og fer kennsla fram að jafnaði í 100 daga á hafi úti. Semester at Sea var stofnað árið 1963 og hafa 55.000 háskólanemar útskrifast úr lotunni. Rick segist hafa kynnst hnattrænni hlýnun beint í starfi sínu en hann hefur verið 35 ár á sjó og tekið eftir miklum breytingum í hafinu. Nefnir hann að gott dæmi um áhrif hlýnunarinnar hér á landi vera aukna göngu makríls við Ísland.

Fór Rick í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar en nú stendur yfir frysting á síld og makríl úr Berki NK. Kom honum á óvart hversu hátt tæknistigið væri hér á landi og hafði hann oft velt því fyrir sér hvernig svo fámenn þjóð gæti framleitt svo mikið en eftir að hafa skoðað skipaflotann og fiskvinnslur landsins væri hann farinn að skilja málið betur.