Um þessar mundir er verið að senda út ánægjukönnun til starfsfólks Síldarvinnslunnar vegna verkefnisins Jafnvægi og vellíðan, sem Austurbrú sá um fyrir Síldarvinnsluna sl. vetur. Verkefnið Jafnvægi og vellíðan samanstóð bæði af fyrirlestrum og einstaklingsúrræðum. Innan verkefnisins var meðal annars boðið upp á eftirfarandi:

  • Fyrirlestur frá heilsumarkþjálfa á íslensku og ensku. Í kjölfarið bauðst starfsfólki að skrá sig í einkaúrræði hjá heilsumarkþjálfanum
  • Fyrirlestur frá næringarfræðingi á íslensku og ensku. Í kjölfarið bauðst starfsfólki að skrá sig í einkaúrræði hjá næringarfræðingnum
  • Einkaþjálfun. Gerður var samningur við einkaþjálfara í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum. Bauðst starfsfólki að skrá sig í fjögurra vikna einkaþjálfun tvisvar sinnum í viku
  • Svefnfyrirlestur á íslensku og ensku. Í kjölfarið tók starfsfólkið þátt í svefnkönnun og bauðst eftir það að skrá sig í svefnúrræði hjá Betri svefni

Tilgangur ánægjukönnunarinnar er að afla upplýsinga um hvort starfsmenn hafi verið ánægðir með fyrirkomulag verkefnisins og eins til að fá upplýsingar um hvað hefði mátt gera betur. Engin svör verða rakin til einstaklinga og unnið með gögnin sem heild.

Er starfsfólk Síldarvinnslunnar eindregið hvatt til að taka þátt í ánægjukönnuninni. Á vinnustöðum verða hengd upp veggspjöld með QR-kóða inn á könnunina. Eins verður könnunin send á netföng starfsmanna.