Nú er kolmunna landað í fiskimjölsverksmiðjurnar. Myndin er tekin á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Kolmunnaveiðin gengur vel og skipin koma hvert af öðru með fullfermi til fiskimjölsverksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði, segja báðir að hráefnið sé afar gott enda kappkosti áhafnir skipanna að koma með það vel kælt að landi.

Eggert Ólafur segir að búið sé að taka á móti 6.200 tonnum á Seyðisfirði og að auki er nú verið að landa þar 3.100 tonnum úr Beiti NK. Þá er Bjarni Ólafsson AK á leiðinni til Seyðisfjarðar með 1.800 tonn. Eggert segir að vinnslan hafi gengið vel að öðru leyti en því að bilun hafi komið upp í mjölskilvindum sem nú sé búið að lagfæra. „Við erum að komast á beinu brautina á ný eftir bilunina,“ segir Eggert.

Hafþór upplýsir að búið sé að landa 11.000 tonnum í Neskaupstað og að auki sé nú verið að landa rúmlega 3.000 tonnum úr Berki NK. „Veiðin er góð og skipin eru að koma með gott hráefni að landi. Vinnslan hjá okkur hefur gengið afar vel og afurðirnar eru fyrsta flokks,“ segir Hafþór.