Heimir Ásgeirsson. Ljósm. Smári Geirsson

Það er ávallt mikið að gera í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hver vertíðin rekur aðra og magnið sem fer í gegnum geymslurnar nemur tugum þúsunda tonna á ári hverju. Geymslurýmið er 18.000 tonn og er um að ræða stærstu frystigeymslur á landinu. Heimir Ásgeirsson er verkstjóri í geymslunum og hefur hann gegnt verkstjórastörfum hjá Síldarvinnslunni frá árinu 1983. Heimasíðan ræddi stuttlega við Heimi og spurði fyrst um verkefnin á yfirstandandi ári. „Eins og venjulega hefur verið nóg að gera það sem af er árinu. Loðnuvertíð hófst í janúar og stóð yfir fram í mars. Það fóru 10.500 tonn af loðnu í gegnum geymslurnar á vertíðinni. Síðan kom örlítil lægð áður en makrílvertíðin hófst. Við erum nú búnir að taka á móti um 15.000 tonnum af makríl á yfirstandandi vertíð. Öll loðnan og makríllinn sem fer inn til okkar kemur frá fiskiðjuverinu að undanskildu því sem Hákon EA landar frystu. Þar að auki tökum við á móti frystum bolfiski frá frystitogaranum Blængi NK. Á þessu ári er í heildina búið að taka um 28.000 tonn inn í frystigeymslurnar en allt árið í fyrra tókum við á móti 57.000 tonnum. Nú þegar makrílvertíð lýkur hefst veiði og vinnsla á norsk – íslenskri síld og síðan verður íslensk sumargotssíld veidd í kjölfarið. Það verður því ekkert lát á verkefnum hjá okkur. Og svo er það spurningin hvort veiðar á loðnu hefjist fyrir áramót,“ segir Heimir.

Heimir upplýsir að langmest af frosnu afurðunum sé flutt frá frystigeymslunum í gámum. „Við sendum frá okkur um 30 gáma á viku og það eru um 25 tonn í hverjum gámi. Gámarnir fara á Reyðarfjörð í skip. Á árinu 2021 fóru frá okkur 1.200 gámar. Síðan koma einnig skip til Neskaupstaðar og lesta þar frosnar afurðir frá okkur. Það eru ávallt verulegar birgðir í geymslunum og nú þegar við tölum saman eru þar um 13.000 tonn. Þetta eru allt stórar tölur og mikil umsvif. Við erum fjórir sem störfum fast í frystigeymslunum en mjög oft þurfum við að fá viðbótarmannskap til að leysa verkefnin,“ segir Heimir að lokum.