Einn kemur þá annar fer. Margrét EA kemur til löndunar og Bjarni Ólafsson AK heldur til veiða að lokinni löndun. Ljósm. Smári GeirssonEinn kemur þá annar fer. Margrét EA kemur til löndunar og
Bjarni Ólafsson AK heldur til veiða að lokinni löndun.
Ljósm. Smári Geirsson
Makrílvertíð er ávallt annatími hjá starfsmönnum frystigeymsla Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en makrílvinnsla hófst sl. laugardag. Í frystigeymslunum er tekið á móti allri framleiðslu fiskiðjuvers fyrirtækisins og einnig landa skip sjófrystum afurðum beint í geymslurnar. Heimir Ásgeirsson, verkstjóri í frystigeymslunum, segir að fastir starfsmenn í frystigeymslunum séu fjórir talsins en síðan komi fleiri til starfa við upp- og útskipanir. „Það fer mikið magn í gegnum frystigeymslurnar á makrílvertíðinni. Fyrstu fimm sólarhringa vertíðarinnar hefur verið samfelld vinnsla í fiskiðjuverinu og þá hefur Hákon EA landað einum farmi af sjófrystum makríl. Auðvitað höfum við nóg pláss því frystigeymslurnar rúma á bilinu 15 til 18 þúsund tonn. Mikið af makrílnum er flutt út í gámum en síðan koma einnig flutningaskip og lesta misjafnlega mikið magn. Eitt er víst að það verður nægum verkum að sinna á makrílvertíðinni sem nú er nýhafin,“ segir Heimir.
 
Ekkert lát er á makrílvinnslu í Neskaupstað. Í gær kom Bjarni Ólafsson AK til löndunar með um 500 tonn og í dag kom Margrét EA  með um 900 tonn. Skipin mættust á Norðfirði skömmu fyrir hádegi eins og meðfylgjandi mynd sýnir.