Við áramót er gott að líta yfir farinn veg og fara yfir atburði líðandi árs og á sama tíma að skerpa á þeirri framtíðasýn og væntingum sem við höfum til komandi árs. Eins og þið ættuð að þekkja þá er sjávarútvegur allt nema fyrirsjáanleg atvinnugrein og má líkja hverju ári í rekstri Síldarvinnslunnar við það að sitjast upp í nýjan og ólíkan rússíbana. Það eru margir óvissuþættir sem huga þarf að, verður loðna eða verður ekki loðna, hvernig verða aðstæður á mörkuðum, hvar verða gjöfulustu miðin þetta árið, óvissa í samningsmálum um deilistofna og svo margar aðrar utanaðkomandi breytur sem við getum ekki haft áhrif á en verðum einfaldlega að gera það besta úr sama hver niðurstaðan verður. 
 
Loðnubrestur markaði upphaf þessa árs. Þrátt fyrir þann mikla þunga, tíma og fjármuni sem að útgerðir settu í leit og mælingar á stofninum fylgdi brestinum mikið tekjutap fyrir starfsfólk, fyrirtæki, sjávarbyggðir og samfélagið allt. Þó svo að byrjun ársins væri erfið náðum við hins vegar að spila vel úr okkur spilum. Veiðar og vinnsla gengu vel, mjölmarkaðir voru hagfelldir framan af ári, öll okkar skip færðu gæðahráefni að landi sem að skilaði sér í mikilli verðmætasköpun. Upphafið að fyrirhugaðri endurnýjun á togarflota samstæðunnar varð loksins að veruleika þegar að dótturfélagi okkar Bergi – Hugin hf var afhent ný Vestmannaey og Bergey sl. sumar og vinnum við núna að því að koma þeim á veiðar með þeim framúrskarandi mannskap sem þar er um borð. Smíði á nýjum Berki hófst á árinu og höfum við einnig unnið að endurbótum á landvinnslunni með það í huga að skapa aukin verðmæti úr hverju kílói sem við drögum úr sjó. 
 
Það má segja að síðustu mánuðir ársins hafi verið erfiðir fyrir sjávarútveginn þegar þungar ásakanir voru bornar á íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki vegna starfsemi þess á erlendri  grund.   Risu margir upp með yfirlýsingar um að gjörbylta þyrfti íslenskri fiskveiðilöggjöf vegna þessa. Ég tel slíka umræðu ekki byggða á neinum skynsamlegum rökum enda hefur íslenska fiskveiðistjórnunnarkerfið verið forsenda þess að við höfum skipað okkur í fremstu röð á meðal fiskveiðiþjóða í heiminum. Á sama tíma eru brýnir hagsmunir fyrir greinina og fyrirtækið sem um ræðir að ásakanirnar verði rannsakaðar og leiddar til lykta af viðeigandi yfirvöldum. 
 
Við erum ekki einungis að sigla inn í nýtt ár heldur erum við að sigla inn í nýjan áratug. Við getum verið stolt af þeim árangri sem við náðum sl. áratug og tel ég Síldarvinnslunna hafa skipað sér í hóp öflugustu fyrirtækja landsins. Lykillinn að árangrinum eru þeir framúrskarandi starfsmenn sem starfa hjá fyrirtækinu og fjölskyldur þeirra. Nýr áratugur mun fela í sér fjölbreytt og spennandi tækifæri sem munu fylgja ýmsar áskoranir. Það er undir okkur komið að nýta þau tækifæri til hins ítrasta til verðmætasköpunar fyrir land og þjóð. 
 
Kæru samstarfsmenn ég þakka ykkur fyrir samstarfið á liðnu ári og óska ykkur farsældar á því nýja og hlakka til þess að vinna að spennandi verkefnum með ykkur öllum á komandi ári.
 
Kveðja
Gunnþór Ingvason