Bjarni Ólafsson AK og Börkur NK héldu til kolmunnaleitar frá Neskaupstað í síðustu viku. Skipin komu á ný til hafnar á föstudagsmorgun og segir Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni að leitin hafi ekki skilað árangri. „Það er heldur lágt á manni risið eftir þessa leit. Skipin leituðu í Rósagarðinum og austan og vestan við hann. Síðan var leitað í Hvalbakshalli og norður eftir, allt norður fyrir Seyðisfjarðardýpi. Það var nánast ekkert að sjá á öllu þessu svæði – sums staðar þunnt ryk sem nánast ekkert var. Hvorugt skipanna bleytti veiðarfærin í þessum leitartúr. Þó svo að ekkert hafi komið út úr þessu þá er nauðsynlegt að fara að leita og kanna stöðuna, það gerist ekkert öðru vísi. Vonandi gengur bara betur næst,“ segir Runólfur Runólfsson.