Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði sl. miðvikudag að aflokinni fimm daga veiðiferð. Aflinn var 117 tonn og var ýsa uppistaða hans. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst um veður í túrnum. “Það var blíðuveður allan túrinn. Við hófum veiðar í Berufjarðarálnum en síðan var mest veitt á Papagrunni. Eins og oft áður leituðum við að ufsa. Segja má að allar nætur hafi farið í ufsaleit með litlum árangri. Það virðist einfaldlega vera afskaplega lítið af honum á ferðinni, allavega var það þannig í þessum túr. Að öðru leyti aflaðist vel,” segir Hjálmar Ólafur.
Gullver hélt á ný til veiða fljótlega eftir að löndun lauk.