Togarar í Síldarvinnslusamstæðunni öfluðu vel á nýliðnu ári. Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE skiluðu bæði á land yfir 4.000 tonnum, Bergur 4.448 tonnum og Vestmannaey 4.335 tonnum. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri skipanna, segir að menn séu ánægðir með árið. „Aflaverðmæti skipanna hefur aldrei verið meira en á árinu 2023 og veiðar þeirra gengu vel allt árið. Menn geta ekki verið annað en sáttir. Þegar kom fram á haustið var meira sótt austur fyrir land en á árinu 2022 og frá því í nóvember var hægt verulega á veiðum vegna stöðunnar í Grindavík en hluti af afla skipanna fer til vinnslu hjá Vísi. Þá ber að nefna að veðurfar í haust og fram til áramóta var tiltölulega hagstætt,“ segir Arnar.
Veiðar hjá Gullver NS gengu einnig vel á árinu og var ársaflinn 4.394 tonn. Þá var árið hjá frystitogaranum Blængi NK býsna gott en afli skipsins var 7.750 tonn og verðmæti aflans tæplega þrír milljarðar króna. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segist vera afar ánægður með árið. „Það gekk í reynd allt eins og í sögu. Veiðar gengu vel og aflaverðmæti mikil. Árið var gott hjá Gullver en nú er Gullver í slipp á Akureyri og heldur ekki til veiða á nýju ári fyrr en í næstu viku. Þá var gangurinn hjá Blængi afskaplega góður og ársafli hans var meiri en áður. Það er ekki hægt að vera annað en sáttur við útkomuna,“ segir Grétar.