Trollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonTrollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE héldu til veiða 2. janúar en ísfisktogarinn Bjartur NK og frystitogarinn Barði NK 5. janúar. Nú eru ísfisktogararnir komnir í sína þriðju veiðiferð á árinu eða eru að hefja hana. Allir hafa ísfisktogararnir veitt á Austfjarðamiðum það sem af er árinu. Bergey og Vestmannaey hafa lagt áherslu á ýsuveiðar en Gullver og Bjartur á þorsk- og karfaveiðar.
 
Gullver landaði að morgni 5. janúar á Seyðisfirði um 35 tonnum af þorski og 20 tonnum af karfa. Hann kon aftur inn 11. janúar og landaði þá 40 tonnum af þorski, 20 tonnum af karfa og einnig nokkuð af ýsu og ufsa. Gullver hélt í sína þriðju veiðiferð á árinu um hádegi í gær.
 
Vestmannaey og Bergey lönduðu samtals 70 tonnum af ýsu, 50 tonnum af þorski ásamt nokkuð af ufsa og karfa á Eskifirði hinn 7. janúar. Vestmannaey landaði á ný í Vestmannaeyjum í gær og var aflinn að uppistöðu til ýsa og karfi, 25 tonn af ýsu og 20 tonn af karfa. Í dag landar Bergey í Vestmannaeyjum svipuðum afla og Vestmannaey landaði í gær, en þó er heldur meira af ufsa í afla Bergeyjar.
 
Fyrsti túr Bjarts á árinu stóð einungis í tvo daga og í lok hans landaði hann 35 tonnum af þorski og 8 tonnum af ýsu. Sl. þriðjudag kom hann á ný til löndunar með um 70 tonn af þorski og 10 tonn af karfa. Bjartur hélt í sína þriðju veiðiferð á árinu fyrr í dag.
 
Frystitogarinn Barði hélt til veiða 5. janúar eins og fyrr segir og hóf veiðar á Austfjarðamiðum. Um helgina færði hann sig suður fyrir land og hyggst reyna fyrir sér í karfa og gulllaxi.