Stjórnendur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar funda um Arndísi. Ljósm. Hákon Viðarsson.Arndís nefnist upplýsingakerfið eða tölvugagnaskráin sem fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar nota. Í Arndísi eru skráðar allar nauðsynlegustu upplýsingar sem verksmiðjurnar þurfa á að halda allt frá móttöku hráefnis til útskipunar afurða. Kerfið tryggir fullkominn rekjanleika þannig að unnt er að skoða einkenni  hráefnisins sem berst til vinnslu hverju sinni og eðli afurðanna úr því.

Fyrir stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna er Arndís gulls ígildi og í kerfinu er að finna allar upplýsingar um vertíðir frá árinu 1993. Þetta gagnakerfi fiskimjölsverksmiðjanna er eins og önnur tölvukerfi; ávallt þar að uppfæra þau, endurskoða og bæta. Fyrr í þessum mánuði var haldinn fundur í Neskaupstað þar sem stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna hittust og yfirfóru nýjustu breytingarnar á kerfinu. Það var Ólafur Garðarsson hjá Íkon ehf. sem kynnti breytingarnar en hann hefur unnið að mótun Arndísar frá upphafi. Nýjustu umbæturnar fela í sér meðal annars að allar skráningar verða auðveldari og unnt verður að flytja upplýsingar úr kerfinu yfir í önnur gagnakerfi fyrirtækisins. Þessar breytingar eru til mikilla þæginda fyrir stjórnendur að sögn Gunnars Sverrissonar rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar.

Arndís á sér alllanga sögu og má rekja upphaf hennar allt aftur til áranna 1984-1985 en vart er unnt að tala um heildstæða tölvugagnaskrá fyrr en á árinu 1993. Það voru í reynd verksmiðjustjórar Síldarverksmiðja ríkisins og síðar SR-mjöls sem mótuðu Arndísi í samvinnu við Ólaf Garðarsson þannig að upplýsingakerfið hefur alla tíð tekið mið af þeim þörfum sem voru til staðar í iðnaðinum. Arndís heitir eftir Arndísi Steinþórsdóttur sem starfaði í sjávarútvegsráðuneytinu og var fyrsti stjórnarformaður SR-mjöls. Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl sameinuðust árið 2003 kynntust starfsmenn Síldarvinnslunnar kerfinu og hófu að nota það.