BúdapestDagana 17. og 18. október nk. munu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum halda í skemmti- og árshátíðarferð til Búdapest höfuðborgar Ungverjalands. Alls telur hópurinn rúmlega 360 manns.

Farið verður með flugi frá Egilsstöðum og þangað verður hópnum einnig skilað í lok ferðar. Hinn 17. október munu starfsmenn í Helguvík og áhafnir skipanna ásamt mökum halda til Ungverjalands og hinn 18. munu aðrir starfsmenn og makar þeirra fylgja í kjölfarið. Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða og sömu leið til baka að ferð lokinni. Nauðsynlegt er að farþegar séu komnir á flugvöllinn tveimur tímum fyrir brottför. Fyrri hópurinn mun halda heim á leið hinn 21. október en sá síðari degi seinna.

Árshátíð starfsmanna fyrirtækisins mun verða haldin laugardaginn 19. október og mun hún hefjast kl. 18. Árshátíðin mun fara fram á veitingastaðnum Larus sem er í um 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu sem gist verður á (Hotel Novotel City).

Fyrir utan árshátíðina munu starfsmennirnir nýta dvölina í Búdapest með ýmsum hætti. Meðal annars gefst þeim tækifæri til að fara í skipulagðar skoðunarferðir. Ein ferðin er borgarferð, þar sem helstu merkisstaðir borgarinnar verða skoðaðir. Önnur er kvöldsigling á Dóná og sú þriðja er ferð um Dónárdal.

Allar upplýsingar um árshátíðarferðina er unnt að fá með þvi að smella hér:  http://www.vita.is/borgarlif/stadur/item672972/Budapest