Starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum héldu til Búdapest í októbermánuði síðastliðnum og áttu þar ánægjulega daga. Árshátíð starfsmannanna fór fram í þessari fornfrægu höfuðborg Ungverjalands og þótti vel til takast. Haldið var utan og heim í tveimur hópum; fyrri hópurinn flaug frá Egilsstöðum til Búdapest 17. október en hinn síðari daginn eftir. Fyrri hópurinn kom síðan heim hinn 21. en sá síðari 22. Ferðin gekk að öllu leyti eins og best varð á kosið; veðrið lék við ferðalangana, hótelið sem gist var á var þægilegt, árshátíðin var afar vel heppnuð og það var margt að skoða í borginni. Þá nutu ungverskir stórmarkaðir góðs af þessari heimsókn í verulegum mæli.
Guðlaugur Birgisson tók mikið af myndum í ferðinni og munu lesendur heimasíðunnar nú fá að njóta sýnishorns af þeim í meðfylgjandi myndaalbúmi.