Í framhaldi af vinnu við samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar og greiningu á umhverfisfótspori fyrirtækisins kom í ljós að frammistaða við flokkun úrgangs og endurvinnslu var ekki eins og best var á kosið. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var ákveðið að efna til átaks í meðhöndlun á þeim úrgangi sem kemur frá starfsemi fyrirtækisins og koma þessum málum í lag til frambúðar. Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa sýnt þessum málum mikinn áhuga og hefur komið fram eindreginn vilji hjá þeim til að breyta vinnubrögðum varðandi flokkun úrangs og auka endurvinnsluhlutfall. Í framhaldi á þessu hafa Síldarvinnslan og Terra hf hafa gert með sér samstarfssamning um meðhöndlun á úrgangi sem fellur til hjá fyrirtækinu. Markmiðið samningsins er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með því að auka hlutfall þess úrgangs sem fer í endurvinnslu.
Um nokkurt skeið hefur Síldarvinnlsan verið í samstarfi við Hampiðjuna um meðhöndlun á úrgangsveiðarfærum. Veiðarfærin eru þung og efnismikil og þegar þau eru tekin úr notkun er töluvert mál að losna við þau. Hampiðjan hefur tekið að sér að að vinna við frágang á veiðarfærum þegar hætt er að nota þau ásamt starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Við fráganginn eru einstakir hlutar veiðarfæranna flokkaðir eins og net og vírar sem síðan eru nýttir til endurvinnslu. Úr þessum úrgangi eru til dæmis gerðar mottur sem nýttar eru á byggingarsvæðum. Þess ber að geta að nú á tímum eru til dæmis framleiddar úlpur úr nyloni sem unnið er úr veiðarfæraúrgangi. Með endurnýtingunni má minnka það magn mikið sem þarf að farga.
Húnbogi Sólon Gunnþórsson hefur að undanförnu unnið að þessu verkefni hjá Síldarvinnslunni og ræddi heimasíðan stuttlega við hann. „Það eru mikil tækifæri hjá Síldarvinnslunni hvað varðar flokkun og endurnýtingu á úrgangi. Frumforsendan er að flokka sorp og alls kyns úrgang betur en gert hefur verið. Hjá fyrirtækinu var meðferð á sorpi og úrgangi ekki til fyrirmyndar og því var ákveðið að ganga til samstarfs við Terra til að bæta stöðuna. Terra býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í þessum málaflokki og bindur Síldarvinnslan vonir við gott samstarf við fyrirtækið og árangur í samræmi við það. Við vitum að stór hluti af þeim úrgang sem við náum ekki að endurvinna er óhreint plast en við erum að leita leiða með Terra til að hreinsa það og ná þannig að endurvinna það. Staðreyndin er sú að með því að auka endurvinnsluhlutfall úrgangs er unnt að lækka kostnað vegna hans verulega. Auðvitað tekur einhvern tíma að koma þessum málum í lag hjá fyrirtæki eins og Síldarvinnslunni en fyrir liggur að það skortir ekki áhuga starfsmanna fyrir umbótum í þessum efnum,“ segir Húnbogi Sólon.