Dagurinn í gær var síðasti starfsdagur Auðar Hauksdóttur á skrifstofu Síldarvinnslunnar en hún hefur starfað þar í rétt þrjátíu ár eða frá árinu 1991. Þegar Auður hóf störf á skrifstofunni annaðist hún sjómannalaunin en þegar Elísabet Karlsdóttir lét af störfum sem aðalbókari árið 2000 tók Auður við því starfi.

Auður Hauksdóttir. Ljósm. Smári Geirsson

Auður segir að mikið hafi breyst á þessum þrjátíu árum og það sé einkum tölvuvæðingin og tölvutæknin sem orsakað hefur þá breytingu. Starf aðalbókarans hafi breyst eins og öll önnur skrifstofustörf og miklu skipti í nútímanum að unnt sé að sækja nánast allar upplýsingar í bókhaldið hvenær sem er. Auður segist ætla að njóta lífsins í framtíðinni og nú hugsi hún mest um golfsumarið sem framundan er.

Arftaki Auðar í starfi aðalbókara er Rakel Kristinsdóttir. Þá mun Eva Þorfinnsdóttir hefja störf við bókhald nú um mánaðamótin en aukið álag er á skrifstofunni vegna þess að fyrirtækið mun fara á markað í maímánuði.