Loðnufrysting í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Loðnuveiðin hefur aukist verulega síðustu daga og samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar er fryst bæði á Asíu og Austur-Evrópu og eru afköstin góð. Áta í loðnunni hefur þó verið til dálítilla vandræða. Um helgina var unnið úr norsku bátunum Teigenes og Harmoni. Í morgun var síðan byrjað að vinna úr Berki NK sem kom með 900 tonn. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við fórum í okkar fyrsta loðnutúr um hádegi á laugardag og vorum lagstir að bryggju með 900 tonn fimmtán tímum síðar. Þetta var því hressandi byrjun á vertíðinni hjá okkur. Við héldum strax á þær slóðir sem norsku loðnuskipin héldu sig, um 9 mílur út af Fáskrúðsfirði. Þar var fínasti loðnuflekkur og við fengum þessi 900 tonn í þremur köstum. Fyrsta kastið gaf 200 tonn, næsta 500 tonn og hið þriðja 200 tonn. Þetta gekk eins og í sögu. Nú er flotinn byrjaður að veiða vestan við Ingólfshöfða en þar var einmitt góð veiði á sama tíma í fyrra. Skipin voru að fá gott í gær og hafa verið að kasta í dag þannig að loðnan virðist loksins vera búin að þétta sig almennilega. Það eru því ágætis horfur núna, þrátt fyrir að kvótinn sé býsna lítill,“ sagði Hjörvar.