Gullver NS við bryggju framan við fiskvinnsluhúsið. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS við bryggju framan við fiskvinnsluhúsið. Ljósm. Ómar BogasonSeint á síðasta ári festi Síldarvinnslan kaup á öllum hlutabréfum í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði en Gullberg hefur lengi gert út togarann Gullver NS. Samhliða kaupunum á Gullbergi keypti Síldarvinnslan húsnæði og búnað Brimbergs sem rekið hefur fiskvinnslu á Seyðisfirði. Þegar kaupin áttu sér stað gaf Síldarvinnslan út þá yfirlýsingu að Gullver NS yrði áfram gerður út frá Seyðisfirði og áfram yrði haldið framleiðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs á staðnum en Síldarvinnslan rekur þar fyrir fiskimjölsverksmiðju.
 
Síldarvinnslan hóf að endurskipuleggja útgerð togarans og fiskvinnsluna hinn 1. október sl. og hefur starfsemin verið býsna öflug frá þeim tíma. Reksturinn verður undir merkjum Gullbergs sem mun hafa stöðu dótturfélags Síldarvinnslunnar. 
 
Á tímabilinu 1. október til áramóta var sá afli sem kom til vinnslu á Seyðisfirði 52% meiri en á sama tímabili 2013. Auk þess að vinna afla frá togaranum Gullver var fiskur fluttur til vinnslu á Seyðisfirði frá Neskaupstað og Akureyri og eins hafa skip Bergs-Hugins, Vestmannaey og Bergey, landað þar afla sínum alloft. Að sögn Ómars Bogasonar á Seyðisfirði fer árið afar vel af stað og er í nógu að snúast. „Vinnslan hefur gengið mjög vel frá áramótum hjá nýja Gullbergi,“ sagði Ómar. „Fram til dagsins í dag höfum við unnið úr 484 tonnum af þorski og ufsa frá áramótum en á sama tíma í fyrra var unnið úr 132 tonnum. Að vísu ber að taka fram að togarinn Gullver var frá veiðum í einar þrjár vikur í janúar og febrúar í fyrra en það breytir því ekki að mjög aukinn kraftur er í vinnslunni núna. Vinna er stöðug og góð alla daga og unnið hefur verið suma laugardaga. Þetta er mikil breyting því áður var gjarnan unnið í fiskvinnslunni þrjá og hálfan til fjóra daga í viku. Það er verið að slípa ýmislegt til í starfseminni en ég verð ekki var við annað en að starfsfólkið sé mjög ánægt með þá þróun sem hefur átt sér stað,“ sagði Ómar að lokum.