Gullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonEftir að Síldarvinnslan festi kaup á ísfisktogaranum Gullver og fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði hafa umsvif bæði á sviði veiða og vinnslu aukist til mikilla muna, en togarinn og fiskvinnslustöðin eru starfrækt undir merkjum Gullbergs ehf. Á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs var afli togarans  1086 tonn á meðan hann var 601 tonn á sama tíma ársins 2014 og 761 tonn á sama tíma ársins 2013. Afli Gullvers hefur að miklu leyti farið til vinnslu hjá Gullbergi en hluti aflans hefur verið unninn hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja á Dalvík auk þess sem nokkuð af aflanum, aðallega karfi, hefur verið seldur ferskur á erlenda markaði.
 
Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu 737 tonn til vinnslu hjá fiskvinnslustöðinni samanborið við 306 tonn á árinu 2014 og 535 tonn á árinu 2013. Eins og fyrr greinir kom drjúgur hluti hráefnisins frá Gullver en eins kom hráefni frá Bjarti NK og fleiri skipum.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá Gullbergi er starfsfólkið ánægt með þessa þróun og sama er að segja um Seyðfirðinga almennt. „Vinnan er samfelld og mikil en það var ekki svo áður,“ sagði Ómar. „Staðreyndin er sú að umsvifin á þessu sviði eru meiri nú en þau hafa verið í mörg ár og það skiptir bæði starfsfólkið og sveitarfélagið miklu máli. Það þurfti svo sannarlega að eiga sér stað umskipti á þessu sviði og nú hefur það gerst. Í reyndinni hefur verið skortur á starfsfólki að undanförnu en í síðustu viku og þessari höfum við notið þess að fá reyndar konur úr fiskiðjuverinu í Neskaupstað til að starfa með okkur. Það er hlé á uppsjávarvinnslunni í fiskiðjuverinu um þessar mundir og við njótum góðs af því. Þau umskipti sem orðið hafa bæði varðandi veiðar og vinnslu eru afar mikilvæg og ánægjuleg,“ sagði Ómar að lokum.