Bjarni Ólafsson AK að taka loðnunótina í dag. Ljósm. Smári Geirsson

Sl. miðvikudag tilkynnti Hafrannsóknastofnun að loðnukvóti yrði aukinn um að minnsta kosti 100 þúsund tonn. Þessi tilkynning þýddi að öll fyrirtæki sem fást við loðnuveiðar og -vinnslu þurftu að endurskipuleggja starfsemina. Síldarvinnslan brást til dæmis strax við með því að undirbúa Bjarna Ólafsson AK til veiða. Áhöfn Bjarna Ólafssonar var flutt yfir á Barða NK fyrir síðustu makrílvertíð og hefur skipið legið í Norðfjarðarhöfn síðan í lok ágústmánaðar. Ráða þurfti áhöfn á Bjarna Ólafsson í skyndi og hefur það nú verið gert. Ráðgert er að skipið haldi til veiða í dag og verður Atli Rúnar Eysteinsson skipstjóri. Til að byrja með verður Runólfur Runólfsson Atla Rúnari til halds og trausts en Runólfur var lengi skipstjóri á Bjarna Ólafssyni og gjörþekkir skipið. Þegar Bjarni Ólafsson heldur til veiða verða loðnuskip Síldarvinnslunnar á vertíðinni fjögur talsins en fyrir eru Barði NK, Beitir NK og Börkur NK.

Samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Nú er verið að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sem er með 2.100 tonn en áður höfðu 1.550 tonn komið á land úr Beiti NK. Þá er Börkur NK á leiðinni með 2.500 tonn en góð veiði hefur verið vestur af Vestmannaeyjum. Vinnslan í fiskiðjuverinu hefur gengið afar vel og hráefnið hefur verið gott. Skipin eru nú að melda 19% hrognafyllingu þannig að ekki eru margir dagar í hrygningu. Þegar þetta er ritað hefur fiskiðjuverið í Neskaupstað tekið á móti um 18.000 tonnum á vertíðinni.