Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Tvær síðustu veiðiferðir Vestmannaeyjar VE og Bergs VE hafa verið skraptúrar. Áhersla hefur verið lögð á að veiða karfa, ufsa og lýsu en þorskur og ýsa hafa verið látin í friði. Að loknum fyrri túrnum var landað 15. og 16. febrúar en úr seinni túrnum lönduðu skipin um helgina. Bæði skip héldu síðan á ný til veiða í morgun. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að báðir þessir túrar hafi einkennst af þokkalegu kroppi. „Þetta gekk bara ágætlega og við vorum á miðunum hérna í kringum Eyjar; í Háadýpinu, á Sneiðinni og vestan við Gjá. Það verður að sinna fleiri tegundum en þorski og ýsu og því kemur alltaf að skraptúrum. Bæði skip voru með um 50 tonna afla í hvorum túr. Og nú eru þau bæði á leið austur með landinu. Það á að kíkja á ýsu,“ segir Birgir Þór.