Trollið tekið á Barða NK. Ljósm. Hreinn SigurðssonFrystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun eftir vel heppnaða veiðiferð sem hófst þó ekki glæsilega. Fyrst hélt skipið til úthafskarfaveiða en gafst upp eftir sex sólarhringa og fékkst enginn afli á þessum tíma. Þá var haldið til Hafnarfjarðar og skipt um hlera og síðan hafnar gullkarfaveiðar í Víkurálnum. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti heimasíðuna að gullkarfaveiðin hefði í reynd verið ævintýraleg, allt upp í 700 kg. á mínútu og því hefði skipið verið langtímum saman á reki á meðan vinnsla fór fram. „Þetta var sannkölluð Holið hjá Barða NK var 20 tonn. Ljósm. Hreinn Sigurðssonmokveiði“, sagði Theodór,“og við tókum þarna nokkur 15-20 tonna hol. Undir lok túrsins var ætlunin að veiða ufsa og þá var haldið á Halann en þar hafði verið ágætis ufsaveiði. Þegar við komum þangað hafði veiðin hins vegar dottið niður og því tekin ákvörðun um að reyna við ufsa hér fyrir austan. Við fylltum síðan skipið á tveimur sólarhringum á Papagrunni og í Berufjarðarál. Þar var þokkalegt nudd í ufsanum og reyndar var síðasta holið býsna gott, ein 12 tonn. Eftir að tilrauninni til veiða á úthafskarfa  lauk vorum við 11 sólarhringa á veiðum og er heildaraflinn um 330 tonn upp úr sjó. Túrinn tók alls 18 daga höfn í höfn og var fínasta veður allan tímann ef undanskilinn er einn bræludagur,“ sagði Theodór hinn ánægðasti.

Aflinn losaður í móttökuna. Ljósm. Hreinn SigurðssonGert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld og aftur verði lögð áhersla á að fiska karfa og ufsa.