Barði NK kominn til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK kominn til löndunar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með nánast fullfermi eftir 18 daga veiðiferð. Aflinn er 360 tonn upp úr sjó að verðmæti 96 milljónir króna og er uppistaða hans gulllax og ufsi. Theodór Haraldsson skipstjóri sagðist vera ágætlega sáttur við túrinn. „Veiðiferðin hófst á Austfjarðamiðum þar sem reynt var við ufsa en síðan lá leiðin allt að Vestmannaeyjum þar sem áhersla var lögð á að veiða karfa og gulllax. Fyrir austan var alltof mikill þorskur fyrir okkur sem leggjum áherslu á að veiða aðrar tegundir. Þar gekk erfiðlega að finna ufsann framan af en okkur gekk betur að finna hann hér eystra undir lok túrsins. Annars ber að nefna að veðrið var gott allan túrinn og það er mikils virði,“ sagði Theodór.
 
Barði mun halda til veiða á ný nk. fimmtudag.