Bjartur kemur til hafnar í Neskaupstað í gær. Ljósm. Hákon Viðarsson.Frystitogarinn Barði kom til Hafnarfjarðar í morgun og landar þar fullfermi. Aflinn er að mestu makríll en dálítið er þó af grálúðu og þorski. Skipið hefur síðustu daga verið að makrílveiðum suðvestur af landinu, í Grindavíkurdýpi og á nærliggjandi slóðum. Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða að löndun lokinni seint í dag og samkvæmt áætlun á veiðiferðinni að ljúka um næstu mánaðamót.

Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í gær að afloknum góðum túr. Aflinn var um 90 tonn og var hann mjög blandaður. Um 29 tonn aflans var þorskur, 23 tonn karfi, 19 tonn ufsi og 14 tonn grálúða. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra gengu veiðarnar vel og var einkar auðvelt að ná þorski, karfa og grálúðu. Var skipið á veiðum í Berufjarðarál og í Seyðisfjarðardýpi.

Áhöfnin á Bjarti fer nú í þriggja vikna frí og er ráðgert að skipið haldi á ný til veiða hinn 5. ágúst.