Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK hélt til Akureyrar í lok ágústmánaðar þar sem starfsmenn Slippsins hófu að fjarlægja úr honum vinnslubúnað á vinnsluþilfari og koma síðan fyrir búnaði til meðhöndlunar á ísfiski. Barða er ætlað að taka við hlutverki ísfisktogarans Bjarts sem seldur var til íransks fyrirtækis fyrir skömmu. Framkvæmdirnar um borð í Barða gengu samkvæmt áætlun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í dag. Síðan er ráðgert að hann haldi til veiða á laugardaginn. Áhöfnin á Bjarti mun færast yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða mun færast yfir á frystitogarann Blæng. Blængur er nú á Akureyri þar sem starfsmenn Slippsins vinna við að koma fyrir í honum vinnslubúnaði á vinnsluþilfari.