Barði NK kemur með Bjart NK í togi. Ljósm. Guðlaugur BirgissonFrá því var greint hér á heimasíðunni að frystitogarinn Barði hafi dregið ísfisktogarann Bjart að landi sl. mánudag en bilun hafði orðið í aðalvél Bjarts. Skipin komu til hafnar aðfaranótt þriðjudags og er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða annað kvöld eða á sunnudag að aflokinni viðgerð.

Klukkan fimm í morgun var Barði staddur úti af Stokksnesi á vesturleið þegar togarinn Ljósafell frá Fáskrúðsfirði  óskaði aðstoðar. Hafði Ljósafellið fengið í skrúfuna á suðvesturhorni Stokksnesgrunns og þurfti á aðstoð að halda. Barði hélt þegar af stað og var kominn að Ljósafellinu að þremur tímum liðnum. Var Ljósafellið þegar tekið í tog og haldið áleiðis til Fáskrúðsfjarðar. Að sögn Geirs Stefánssonar stýrimanns á Barða gengur siglingin vel enda veður afar gott. Segir hann að gert sé ráð fyrir að komið verði til Fáskrúðsfjarðar seint í kvöld.