Frystitogarinn Barði NK hélt til Akureyrar í gær þar sem hann mun fara í slipp. Barði hefur legið í höfn í Neskaupstað í tvær vikur vegna bilunar í túrbínu en nú hefur verið skipt um hana í skipinu.
Gert er ráð fyrir að Barði verði í slippnum í um þrjár vikur. Þar mun hefðbundnum slippverkum verða sinnt eins og botnhreinsun, botnmálun og endurnýjun fórnarskauta. Allir botn- og síðulokar verða teknir upp til skoðunar og sama gildir um skrúfu og stýrisbúnað. Eins verður aðalvél skipsins tekin upp og endurnýjað tengi á milli gírs og aðalvélar. Þá mun verða unnið að ýmsum smærri viðhaldsverkefnum.