Barði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK er á leiðinni í sitt fyrsta rall. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK mun taka þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar sem væntanlega mun hefjast síðar í þessum mánuði. Togararall hefur farið fram árlega frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Barða mun Ljósafell SU annast rallið ásamt hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni.
 
Segja má að Barði sé arftaki Bjarts NK í rallinu en Bjartur tók samtals þátt í 26 röllum og hefur ekkert skip tekið oftar þátt í togararalli. Bjartur var seldur úr landi á síðasta ári og er því fjarri góðu gamni.
 
Í rallinu mun Barði toga á 182 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svonefndu norðaustursvæði en það er svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg austur og suður um að Íslands-Færeyjahrygg. Gjarnan hefur verið gert ráð fyrir að rallið taki um tuttugu daga.