Frystitogarinn Barði NK kom með fullfermi eða um 170 tonn af frystum makríl til Neskaupstaðar síðastliðinn laugardag og hófst löndun úr skipinu í dag. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri sagði að veitt hefði verið fyrir vestan land í túrnum og hefði aflast vel eða eins og frystitækin önnuðu. Upplýsti Bjarni að Barði myndi halda til veiða á ný í kvöld og gerðu menn sér vonir um að unnt yrði að finna góðan fisk fyrir austan land, allt of langt væri að sigla á miðin fyrir vestan. Helsti munurinn á vertíðinni nú og síðustu vertíðum er sá að mati Bjarna að makríllinn er mun smærri. Sagði Bjarni að gert væri ráð fyrir að Barði færi 5-6 makríltúra og yrði við þær veiðar út ágústmánuð. Barði mun halda til veiða á ný í kvöld.
Ísfisktogarinn Bjartur NK mun væntanlega halda til makrílveiða í dag. Mun hann fara 2-3 makríltúra og koma með 50-60 tonn að landi úr hverri veiðiferð.