Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað sl. laugardag að lokinni góðri veiðiferð, en skipið millilandaði hinn 19. september. Heildaraflinn í veiðiferðinni var 310 tonn upp úr sjó að verðmæti 130 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að meginhluti aflans hafi verið karfi og grálúða. Þá hafi töluvert verið reynt að veiða ufsa en það hafi gengið heldur erfiðlega.“Við byrjuðum í grálúðu hér fyrir austan en síðan var haldið vestur í ufsaleit. Okkur eins og fleirum reyndist erfitt að finna hreinan ufsa – hann var þorsk- eða karfablandaður í alltof ríkum mæli og alls ekki eins mikið af honum og hefur verið síðustu 3-4 árin. Við héldum í Víkurálinn eftir að hafa reynt við ufsann og þar var fínasta karfaveiði. Undir lok túrsins fórum við aftur í grálúðuna hér eystra,“ sagði Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi á ný til veiða í kvöld.