Frystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar 20. mars eftir stutta veiðiferð. Það fiskaðist vel í ferðinni og var aflinn um 360 tonn upp úr sjó, að verðmæti 93,5 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi.
Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri á Barða segir að veiðin hafi gengið vel frá áramótum og í þessari síðustu veiðiferð hafi fullfermi náðst á 11 dögum. Kvótinn leyfir ekki meira en einn fullfermistúr í mánuði og eftir því sem betur fiskast lengjast fríin á milli túra.
Frá áramótum hefur Barði helst veitt grálúðu og karfa og næsti túr verður „blandaður“ þar sem áfram verður lögð áhersla á grálúðu- og karfaveiði ásamt ufsaveiði. Að þessum túr loknum kemur röðin að úthafskarfaveiði og síðan verður væntanlega makríllinn á dagskrá í júlí og ágúst.