Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun úr sínum fyrsta ísfisktúr, en áður hefur Síldarvinnslan gert hann út sem frystitogara. Áhöfnin á ísfisktogaranum Bjarti NK, sem nýlega var seldur, fór yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða fer yfir á frystitogarann Blæng. Afli Barða í þessum fyrsta túr var 80 tonn og var uppistaða hans þorskur en dálítið var af ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði í reynd gengið vel. „Þarna var ný áhöfn á skipinu og hún þarf að sjálfsögðu að venjast því. Þá var verið að prufukeyra nýja ísfisklínu á millidekkinu og eins og vænta mátti kom ýmislegt í ljós sem þarf að lagfæra. Í þessum fyrsta túr vorum við mest á Fætinum og á Breiðdalsgrunni en lentum reyndar vestur í Lónsdýpi og í Berufjarðarál,“ sagði Steinþór.