Landað úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLandað úr Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar með fullfermi á þriðjudaginn. Hann hafði verið 25 daga á veiðum og millilandaði fullfermi hinn 13. apríl. Að sögn Theodórs Haraldssonar, sem var skipstjóri síðari hluta veiðiferðarinnar, aflaðist vel og var veður þokkalegt allan tímann sem skipið var að veiðum. „Í upphafi túrsins var reynt við grálúðu og ufsa en við enduðum í gullkarfa í Víkurálnum. Þar var góð veiði – dregið stutt og mest legið í vinnslu. Aflinn í túrnum var hátt í 800 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 165 milljónir. Þetta var fínn túr,“ sagði Theodór.
 
Barði mun halda til veiða á ný að kvöldi laugardagsins 2. maí.
 
Ísfisktogarinn Bjartur landaði einnig í Neskaupstað á þriðjudaginn. Aflinn var um 90 tonn og var uppistaða hans ufsi og þorskur. Bjartur heldur til veiða á ný í kvöld og er væntanlegur til löndunar þriðjudaginn 5. maí.