Barði NK. Ljósm. Smári Geirsson

Barði NK heldur væntanlega til kolmunnaveiða síðdegis í dag eða í kvöld. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði hvar yrði veitt. „Við munum taka veiðarfærin í dag og svo verður stefnan tekin beint í Rósagarðinn. Það hefur frést af fiski þar. Síðustu ár hafa skip veitt vel í Rósagarðinum um þetta leyti árs og veiðin hefur staðið yfir í nokkrar vikur. Ég hef frétt af fleiri skipum sem eru að hefja veiðar þarna. Þetta verður bara spennandi og menn eru bjartsýnir. Það er alltaf gott að sækja kolmunnann á þessi mið því hann er einnig veiddur miklu fjær landinu eins og menn vita,“ segir Þorkell.

Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að fyrsta löndun á kolmunna úr Rósagarðinum í fyrra hafi verið 27. september en þá var það einmitt Barði sem kom með 760 tonn til Neskaupstaðar. „Það var fínasta veiði í október í fyrra og þannig hefur það verið síðustu ár. Á þessum árstíma er fiskurinn feitur og býsna gott hráefni til vinnslu. Hann er til dæmis mun feitari en hann var í vor. Ég geri ráð fyrir að kolmunna verði landað í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Menn verða klárir að taka á móti hráefninu,“ segir Hafþór.