Heiðveig María Einarsdóttir viðskiptalögfræðingur og kokkur á Barða NK. Ljósm. Smári Geirsson

Nú er verið að undirbúa Barða NK (áður Börkur II) til veiða. Gert er ráð fyrir að skipið leggi úr höfn í kvöld og þá verði stefnan tekin á kolmunnamiðin í Rósagarðinum. Skipstjórinn, Atli Rúnar Eysteinsson, segir að allt sé að verða tilbúið og áhöfnin sé klár í slaginn. Kokkurinn á Barða er Heiðveig María Einarsdóttir og segist hún vera mjög spennt fyrir störfunum um borð í Barða. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á sjó á uppsjávarskipi þannig að hér er margt framandi fyrir mig. Ég hóf mína sjómennsku á Flæmska hattinum fyrir rúmum 20 árum og hef verið bæði á frystitogurum og ísfisktogurum, ýmist sem kokkur eða háseti. Ég var á Sunnu frá Siglufirði og síðan á Ými, Engey og Helgu Maríu. Síðan fór ég einn túr á Gullver sl. vor og var þar einnig um borð í togararallinu. Ég er uppalinn í sjómannafjölskyldu og fékk snemma eldlegan áhuga á því að komast á sjóinn. Ég fór að spyrja um pláss en lengi vel var bara hlegið að mér. Menn töldu að sjómennska væri ekki fyrir konur. En það kom að því að ég komst út á sjó og mér líkaði það stórvel. Ég hef að vísu ekki verið samfellt á sjó og tók langt hlé til að mennta mig og eignast börn, en ég er viðskiptalögfræðingur að mennt,“ segir Heiðveig María.

Flestir sem fylgjast með fréttum kannast við að Heiðveig María og samherjar hennar gerðu tilraun til að komast til áhrifa í Sjómannafélagi Íslands fyrir nokkrum árum. Reynt var að bjóða fram lista gegn sitjandi stjórn í félaginu en stjórninni tókst að koma í veg fyrir framboðið. Ekkert fer á milli mála að Heiðveig María hefur sterkar skoðanir á hagsmunamálum sjómannastéttarinnar og ræðir þau mál af ákafa.

En hvernig kom það til að Heiðveig María var ráðinn sem kokkur á Barða? „Þeir hjá Síldarvinnslunni vissu af mér frá því ég leysti af á Gullver og höfðu samband. Ég er afskaplega þakklát fyrir að fá tækifæri til að komast á uppsjávarskip. Sagt var við mig að ég þyrfti að átta mig á því að kokkur á uppsjávarskipi þyrfti líka að vera á dekki og ég er fullkomlega sátt við það. Ég er vön því að gegna hásetaastörfum á togara. Starf kokks á uppsjávarskipi er örugglega dálítið öðruvísi en á togara. Þegar uppsjávarskip veiðir í troll eru einungis átta í áhöfn þannig að fyrir kokkinn er starfið eins og að elda ofan í stóra fjölskyldu. Ég hef unun af því að elda. Eldamennskan er ástríða hjá mér og ég nýt þess að fást við hana. Ég stefni að því að matreiða fallega og vel hér um borð. Eldhúsið hér á Barða er stórglæsilegt. Það er gert til að elda ofan í fimmtíu manns og öll tæki og búnaður eru eins og best verður á kosið.“

Þegar Heiðveig María er spurð hvort fjölskyldan sé sátt við að hún sé á sjó brosir hún og segir að eiginmaður og börn sætti sig vel við það. „Bæði barnsfaðir minn og maðurinn minn eru sjómenn á togurum. Ég á þrjú börn, sem eru 18, 12 og 11 ára og eitt 8 ára stjúpbarn að auki. Börnin hafa vanist sjómennsku foreldranna og við eigum góða að sem ala önn fyrir þeim og hugsa um þau að öllu leyti á meðan við erum fjarverandi og í þeim tilvikum þegar sjómennska okkar skarast. Börnin hafa haft orð á því að stundum sé erfitt að sætta sig við það þegar við förum á sjóinn en gleðin sem skapast þegar við komum í land bæti það margfalt upp,“ segir Heiðveig María.