Barði NK kom með 1.400 tonn af síld til hafnar í gærkvöldi.
Ljósm. Smári Geirsson

Eftir að Barði NK hafði dregið Vilhelm Þorsteinsson EA frá Neskaupstað til Akureyrar hélt hann rakleiðis á síldarmiðin vestur af landinu. Hann kom síðan til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 1.400 tonn af síld. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði hvernig veiðarnar hefðu gengið. „Þær gengu afar vel. Við stoppuðum á miðunum einungis í 36 klukkutíma. Aflinn fékkst í fjórum holum og voru 300 – 400 tonn í hverju holi. Veiðarnar fóru fram um 90 mílur vestnorðvestur af Garðskaga og það var rjómablíða allan tímann, algert bongóveður. Það var töluvert af síld að sjá þarna og aðstæður allar góðar. Síldinn heldur sig við botninn yfir daginn en lyftir sér dálítið frá botninum á nóttunni. Við fórum þó aldrei með trollið upp fyrir 200 metrana. Nú held ég að síldveiðum sé lokið að sinni,“ segir Þorkell.