Barði NK kom til Neskaupstaðar í nótt með 1.800 tonn af kolmunna sem fékkst í færeyskri lögsögu. Heimasíðan ræddi við Hjört Valsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Hún gekk ágætlega. Þegar við komum á miðin fyrir austan Færeyjar var bræla en við gátum byrjað að veiða sl. laugardag. Alls voru þetta sjö hol og var dregið frá 22 tímum og niður í 9-10 tíma. Þannig að það voru tekin eitt til tvö hol á sólarhring. Aflinn var þokkalegur og stærsta holið var 450 tonn. Að lokinni löndun verður haldið til loðnuveiða norður af landinu og það verður spennandi. Það verður gaman að taka þátt í því partíi,“ segir Hjörtur.